Prime Minister's Office of Iceland

07/31/2024 | Press release | Distributed by Public on 07/31/2024 10:17

Tómas Brynjólfsson skipaður varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika

Forsætisráðherra hefur á grundvelli niðurstöðu ráðgefandi hæfnisnefndar og að fenginni tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, skipað Tómas Brynjólfsson í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika til fimm ára frá og með 1. ágúst nk.

Embættið var auglýst laust til umsóknar 9. apríl sl. og bárust sjö umsóknir. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.

Hæfnisnefnd sem skipuð var af fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 7. mgr. 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands, mat fjóra umsækjendur, Eggert Þröst Þórarinsson, Guðrúnu Johnsen, Hauk C. Benediktsson og Tómas Brynjólfsson mjög vel hæfa til að gegna embættinu.

Í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands tók fjármála- og efnahagsráðherra umsóknargögn og greinargerð hæfnisnefndar til sérstakrar skoðunar auk þess að leggja sjálfstætt mat á hæfni umsækjenda, m.a. með viðtölum við þá umsækjendur sem hæfnisnefnd mat mjög vel hæfa. Var það niðurstaða fjármála- og efnahagsráðherra að Tómas Brynjólfsson væri hæfastur umsækjenda og tilnefndi hann til skipunar í embættið.

Er það niðurstaða forsætisráðherra á grundvelli heildarmats á gögnum málsins að Tómas Brynjólfsson sé í reynd, á grundvelli þeirra matsþátta sem lagðir eru til grundvallar í lögum um Seðlabanka Íslands og í auglýsingu um embættið, og miðað við það vægi sem fjármála- og efnahagsráðherra gaf tilteknum hæfnisþáttum og telja verður málefnalegt, hæfastur umsækjenda til að hljóta skipun í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika.

Tómas Brynjólfsson lauk meistaragráðu í alþjóðastjórnmálum frá London School of Economics árið 2004 og meistaragráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2003. Þá lauk hann BA-gráðu í alþjóðastjórnmálafræði, sögu og hagfræði við University of Georgia árið 2002.

Tómas hefur gegnt embætti skrifstofustjóra á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2018 og var settur ráðuneytisstjóri frá janúar til apríl 2024. Á árunum 2015-2018 var hann framkvæmdastjóri á skrifstofu þjónustuviðskipta hjá EFTA-skrifstofunni í Brussel. Þá var hann skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaða í fjármála- og efnahagsráðuneytinu á árunum 2013-2015 en starfaði áður sem sérfræðingur í efnahagsmálum í forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Á árunum 2006-2008 starfaði hann í greiningardeild Landsbankans.

Tómas hefur víðtæka þekkingu og reynslu á sviðum fjármálamarkaða, fjármálastöðugleika og efnahagsmála og hefur m.a. tekið þátt í mótun umgjarðar um fjármálstöðugleika og regluverk á fjármálamarkaði. Þá býr hann yfir yfirgripsmikilli þekkingu á stjórnsýslu og regluverki fjármálmarkaða og þjóðhagsvarúðar.

Tómas var varaformaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins á árinu 2015 og stjórnarformaður hjá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda á árunum 2021-2023. Hann hefur setið í fjölda nefnda og vinnuhópa á vegum stjórnvalda tengdum fjármálamörkuðum, efnahagsmálum og þjóðhagsvarúð auk þess að leiða alþjóðlegt samstarf stjórnvalda á sviði efnahagsmála, m.a. gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Efnahags- og framfarastofnuninni.

Tilnefning fjármála- og efnahagsráðherra ásamt rökstuðningi