Government Offices of Iceland

09/30/2024 | Press release | Distributed by Public on 09/30/2024 07:54

Nýskipaður stýrihópur um byggðamál og unnið að nýjum sóknaráætlunum

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra skipaði nýverið nýjan stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál til þriggja ára, í samræmi við lög um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála. Svandís kom inn á fyrsta fund hópsins í byrjun september og bauð fólk velkomið til starfa.

Eitt af stærri verkefnum stýrihópsins snýr að framkvæmd og eftirfylgni samninga um sóknaráætlanir landshluta. Nýr stýrihópur vinnur að því að ljúka við drög að nýjum samningum og tillögu að skiptingu sóknaráætlunarfjármuna milli landshlutanna átta. Áætlað er að þeirri vinnu verði lokið í október. Þá gaf stýrihópurinn nýverið út árlega greinargerð sína um framvindu sóknaráætlana og ráðstöfun fjármuna árið 2023.

Í öllum átta landshlutunum stendur yfir vinna við gerð nýrra sóknaráætlana sem gilda munu til fimm ára, 2025-2029. Landshlutasamtök sveitarfélaga bera ábyrgð á þeirri vinnu sem skal unnin í breiðu samráði við heimafólk á hverjum stað. Ríkið leggur, ásamt sveitarfélögum, til fjármagn sem rennur annars vegar til sérstakra áhersluverkefna og hins vegar til uppbyggingasjóða landshluta. Drög að sóknaráætlun Norðurlands vestra, hefur þegar verið lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda.

Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar allra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nýr stýrihópur er þannig skipaður:

  • Innviðaráðuneytið: Hólmfríður Sveinsdóttir, formaður.
  • Forsætisráðuneytið: Ásta Bjarnadóttir.
  • Dómsmálaráðuneytið: Kristrún Friðriksdóttir.
  • Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið: Eva Margrét Kristinsdóttir.
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið: Anna Borgþórsdóttir Olsen.
  • Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið: Sigurður Steingrímsson.
  • Heilbrigðisráðuneytið: Margrét Erlendsdóttir.
  • Matvælaráðuneytið: Bryndís Eiríksdóttir.
  • Menningar- og viðskiptaráðuneytið: Baldur Þórir Guðmundsson.
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið: Þór Hauksson Reykdal.
  • Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið: Magnús Örn Agnesar Sigurðsson.
  • Utanríkisráðuneytið: Sigríður Eysteinsdóttir.
  • Samband íslenskra sveitarfélaga: Valgerður Rún Benediktsdóttir.

Byggðastofnun og landshlutasamtök sveitarfélaga eiga áheyrnarfulltrúa í stýrihópnum.