11/01/2024 | Press release | Distributed by Public on 11/01/2024 08:53
Aukin stafræn þjónusta þvert á landamæri gegnir lykilhlutverki í að auðvelda frjálsa för borgara, fyrirtækja, fjármagns, gagna, vara og þjónustu á Norðurlöndum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna sem funduðu í vikunni í tengslum við fundi Norðurlandaráðs í Reykjavík. Í yfirlýsingunni kemur fram að flýta eigi fyrir framgangi stefnu frá 2019 um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.
Markmiðið er að auðvelda frjálsa för borgara, fyrirtækja, fjármagns, gagna, vara og þjónustu. Norræn stjórnvöld vilja stuðla að því að fyrirtæki líti á Norðurlönd sem einn markað og launafólk upplifi að auðvelt sé að færa sig á milli staða á svæðinu, ekki síst fyrir tilstilli stafrænnar þjónustu.
Ráðherrarnir eru meðal annars sammála um að fela innlendum stjórnvöldum það hlutverk að fjarlægja hindranir fyrir að einstaklingar geti notað rafræn skilríki heimalandsins til að fá þjónustu í öðru landi og krefst það samstarfs þjóðskráa landanna og traustþjónustuveitenda. Í dag er skortur á þessum möguleika hindrun fyrir einstaklinga sem búa, vinna eða til dæmis eiga fasteign í öðru norrænu landi. Þessar áskoranir og mögulegar lausnir hafa verið ofarlega í umræðu norrænu ráðherranefndarinnar um stafvæðingu (MR-DIGITAL) sem fjármála- og efnahagsráðherra situr í fyrir hönd Íslands.
Í yfirlýsingunni undirstrika ríkisstjórnirnar einnig þörfina á öflugu norrænu samstarfi gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og notkun samfélagsmiðla til að skipuleggja glæpi og ráða börn og unglinga til liðs við sig.
Forsætisráðherrarnir eru einnig sammála um að halda áfram að samstarfa á mismunandi vettvangi til að tryggja sjálfbæra flæði einstaklinga til ríkja Evrópusambandsins og Norðurlanda í framtíðinni.