Government Offices of Iceland

07/03/2024 | Press release | Distributed by Public on 07/03/2024 05:17

Efling samfélagslögreglu í aðgerðum gegn ofbeldi meðal barna

Samfélagslögregla verður efld á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi eystra samkvæmt samkomulagi dómsmálaráðuneytisins og mennta- og barnamálaráðuneytisins. Markmið aðgerðarinnar er að auka traust á lögreglu og sýnileika í samfélaginu, leysa félagsleg vandamál og ná til barna og ungmenna í viðkvæmri stöðu. Í aðgerðinni felst virkt samtal og samvinna lögreglu við þá aðila sem hafa aðkomu að málefnum barna svo sem skóla, frístundastarf og barnaverndar- og félagsþjónustu sveitarfélaga.

Efling samfélagslögreglu er ein af 14 aðgerðum gegn ofbeldi meðal barna sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kynntu nýlega.
Samtals verður 120 milljónum króna varið til verkefnisins, tveir þriðju hlutar fara til höfuðborgarsvæðisins og einn þriðji til Norðurlands eystra.

Um samfélagslögreglu

Samfélagslögregla er hugmyndafræði og stefna löggæslu sem leggur áherslu á nauðsyn þess að lögreglumenn byggi upp jákvæð tengsl við samfélagið sem þeir þjóna. Markmið samfélagslögreglu er að draga úr glæpum og óreglu með því að vinna með samfélagsþegnum að því að greina og leysa vandamál sem tengjast almannaöryggi.

Samfélagslögregla færir lögreglumenn nær samfélaginu með því að vera sýnilegri á meðal fólks. Áherslan er á fyrirbyggjandi aðgerðir eins og samfélagssamstarf, lausn vandamála og samfélagsþátttöku, öfugt við hefðbundnar löggæsluaðferðir. Samfélagslögregla vinnur að forvörnum og skipuleggur heimsóknir lögreglu í félagsmiðstöðvar, fræðslu í grunn- og framhaldsskólum með það að augnamiði að vinna að afbrotavörnum og byggja upp traust meðal barna og ungmenna.

Forvarnir samfélagslögreglu snúa jafnframt að ábyrgri notkun samfélagsmiðla, stafrænu ofbeldi og einelti, miðlun kynferðislegra mynda á netinu auk fræðslu vegna hótana og kúgana vegna stafrænna gagna. Lagt er upp með að sinna forvörnum vegna kynferðisbrota með áherslu á samþykki og vinna gegn ofbeldi barna og ungmenna.

Eftirspurn og eftirfylgni

Fyrst var farið af stað með samfélagslögreglu árið 2019 og hefur reynslan verið góð. Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru tvö og hálft stöðugildi í samfélagslöggæslu og er mikil eftirspurn eftir þjónustunni. Með aðgerðinni verður samfélagslögreglumönnum fjölgað og samtal milli stofnana aukið. Fylgst verður með árangri aðgerðarinnar og lærdómurinn nýttur í frekari stefnumótun stjórnvalda til að sporna við auknu ofbeldi meðal barna.

Á mynd: Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.