Government Offices of Iceland

09/10/2024 | Press release | Distributed by Public on 09/10/2024 07:49

Ráðherrafundur um almannavarnir í Litháen

Dómsmálaráðherra sat fund um almannavarnir og viðbúnað sem haldinn var 5. september í Vilnius í Litháen. Þar komu saman fulltrúar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna auk Póllands og Úkraínu og ræddu viðbúnað almennings og almannavarnir í ljósi ógnarástands í Austur-Evrópu. Auk umræðu um viðbúnað almennings og viðvörunarkerfi var rætt um neyðarskýli og fjöldaflótta yfir landamæri.

Við þetta tækifæri sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra meðal annars:
"Það er mikill heiður að taka þátt í þessari almannavarnarráðstefnu. Það er bæði brýnt og mikilvægt að ræða almannavarnir á tímum þar sem öryggisástandið í Evrópu er krefjandi, vegna stríðsins í Úkraínu og annarra ógna. Alþjóðlegt samstarf á þessu sviði hefur aldrei verið mikilvægara.
Eins og þið vitið hefur Ísland staðið frammi fyrir gríðarlegum áskorunum undanfarið ár á Reykjanesskaganum vegna eldgosaóróa. Frá því í lok síðasta árs hafa orðið alls níu eldgos á svæðinu. Síðan 2019 höfum við ítrekað þurft að lýsa yfir almannavarnastigi á ýmsum stöðum á Íslandi af mismunandi ástæðum, stundum á sama tíma.
Við höfum staðið frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum þar við höfum ítrekað þurft að grípa til rýminga sem hafa varað í langan tíma og stjórnvöld hafa þurft að útvega eða tryggja húsnæði fyrir um 1% af íbúum landsins. Við höfum einnig þurft að grípa til umfangsmikilla fyrirbyggjandi aðgerða til að vernda mikilvæga innviði með byggingu stórra varnargarða. Varnargarðarnir hafa komið að góðu gagni við að vernda raforkuver og þéttbýli gegn hraunrennsli.
Viðbúnaðaráætlanir okkar og viðvörunarkerfi almannavarna hafa reynst lykilatriði í að tryggja örugga flutninga almennings í tímabundnar fjöldahjálparstöðvar við rýmingar. Við höfum með öðrum orðum séð í rauntíma hvernig tímanlegar og aðgengilegar viðvaranir geta dregið verulega úr neikvæðum afleiðingum neyðarástands.
Yfir 97% Íslendinga eru tengdir við internetið í gegnum tölvur, snjallsíma eða spjaldtölvur og notkun fréttasíða og samfélagsmiðla er mjög algeng. Það er reynsla okkar að viðvaranir og mikilvægar upplýsingar frá stjórnvöldum séu aðgengilegar fyrir nánast alla þegar þess er þörf. Það auðveldar sameiginlegan skilning á hlutverki allra í almannavarnaástandi. .
Við notum einnig textaskilaboð til að ná til fólks sem er staðsett á hættulegum svæðum. . Skilaboðin eru send til þeirra sem ferðast um eða nálægt viðkomandi svæði.
Að ná til ferðamanna á Íslandi er áskorun, en við höfum líka þróað skilvirkar leiðir til að ná til þeirra.
Almennt séð hefur íslenskur almenningur traust á opinberum stofnunum. Eins og við sáum bæði í Covid-19 faraldrinum og ítrekuðum eldgosum hefur það reynst mjög mikilvægt fyrir viðbúnað almennings. Vegna harðrar baráttu okkar Íslendinga við náttúrunahöfum við verulega sérfræðiþekkingu og reynslu á þessu sviði sem við erum mjög stolt af. Við erum sem fyrr ávallt reiðubúin að deila okkar reynslu með öðrum löndum, líkt og við höfum reglulega gert. . Þó áskoranir okkar séu af ólíkum meiði getum við lært mikið hvert af öðru."