10/31/2024 | Press release | Distributed by Public on 10/31/2024 08:17
Samvinna um öryggismál, málefni Úkraínu og ástandið í Mið-Austurlöndum voru til umræðu á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í vikunni, sem haldinn var samhliða 76. þingi Norðurlandaráðs. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sat fundinn sem utanríkisráðherra Svíþjóðar stýrði þar sem Svíþjóð fer með formennsku í norrænu samstarfi utanríkisráðherranna í ár.
"Ísland styður vegferð Úkraínu í átt til aðildar að Atlantshafsbandalaginu. Til framtíðar litið er öryggi Evrópu best borgið með fullri aðild Úkraínu að bandalaginu," segir Þórdís Kolbrún. "Úkraínumenn hafa sýnt ótrúlegt hugrekki og það er undir Vesturlöndum komið hvort Úkraína fær þann nauðsynlega stuðning sem þarf til að tryggja réttlátan og langvarandi frið í Evrópu."
Svetlana Tsiakhnouskaya, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús, var gestur Norðurlandaráðsþings þar sem hún flutti ávarp og átti fund með norrænu utanríkisráðherrunum á þriðjudag. Þá ávarpaði utanríkisráðherra hliðarviðburð þingsins um stuðning norrænna þingmanna við lýðræðisöfl í Belarús.
"Ísland styður réttmæta baráttu Tsiakhounskayu fyrir lýðræði og frelsi," segir Þórdís Kolbrún. "Friðsamleg andspyrna belarússísku þjóðarinnar gegn þessu mótlæti hefur sannarlega verið ótrúleg."
Í gær flutti utanríkisráðherra greinargerð fyrir þingi Norðurlandaráðs um mikilvægi norrænnar samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála og tók þátt í umræðu norrænu varnarmálaráðherranna á þinginu.
"Fyrst og fremst deilum við sem búum á Norðurlöndum sýn á hvers konar samfélög við viljum skapa og búa í og hvernig við álítum að heimurinn eigi að vera, með áherslu á mannréttindi, lýðræði og alþjóðlegt samstarf, bæði á sviðum viðskipta og stjórnmála. Þar sem hver og ein manneskja fær að njóta ávaxta hæfileika sinna og þar sem einstaklingnum er frjálst að láta að sér kveða þar sem hann eða hana lystir, án þess að eiga á hættu að sæta ofsóknum vegna kyns, uppruna, litarháttar, trúar eða kynhneigðar," sagði Þórdís Kolbrún meðal annars í ávarpi sínu.
Þórdís Kolbrún sat einnig fund forsætisnefndar Norðurlandaráðs og norrænu utanríkisráðherranna um utanríkis- og öryggismál. Málefni norðurslóða, Belarús og Úkraínu voru á dagskrá fundarins.
Þá átti ráðherra tvíhliða fund með Mariu Malmer Stenergard, utanríkisráðherra Svíþjóðar, þar sem Þórdís Kolbrún þakkaði Svíþjóð fyrir sterka formennsku í norræna samstarfinu sem og samvinnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á árinu.
Opinbert samstarf norrænu þjóðanna fer fram innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs, þar sem Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands, eru aðilar. Norðurlandaráð er vettvangur þingmanna í samstarfinu, sem stofnað var til árið 1952 og er skipað 87 þingmönnum frá fyrrgreindum löndum. Ísland fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á síðasta ári og gegnir formennsku í Norðurlandaráði í ár.