Innviðaráðuneytið og stofnanir þess hafa kallað reglulega eftir ábendingum um það hvernig bæta megi þjónustu í málaflokkum á þeirra vegum í takt við áherslu innviðaráðherra um að einfalda regluverk í þágu almennings og atvinnulífs. Markmiðið er bæta þjónustu hins opinbera með því að greina hvort og hvar lagðar eru óþarfar, flóknar eða óljósar byrðar á einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög eða félagasamtök sem þurfa þjónustu eða leita erinda hjá ráðuneytinu eða stofnunum þess.
Reglubundnar vefkannanir hafa verið framkvæmdar í þessu skyni þar sem öllum gefst kostur á því að benda á það sem betur má fara í regluverki innviðaráðuneytis og sjö fagstofnunum þess; Byggðastofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Samgöngustofu, Skipulagsstofnun, Vegagerðinni og Þjóðskrá Íslands.
Góð reynsla er af því að kalla eftir ábendingum frá almenningi og hagaðilum. Ríflega 70 ábendingar bárust í könnuninni sem framkvæmd var árið 2022. Flestar ábendinganna hafa skilað árangri með einum eða öðrum hætti, t.d. með lagabreytingum eða breytingum á regluverki, nýjum stafrænum ferlum eða öðrum umbótaverkefnum þar sem ábendingarnar eru hafðar til hliðsjónar.
Ábendingar í ýmsum málaflokkum
-
Húsnæðis- og skipulagsmál. Alls bárust 26 ábendingar sem sneru að þessum málaflokkum, m.a. vegna húsnæðisbóta og tekjuviðmiða, byggingareglugerðar og stjórnsýslu og verklags stofnana. Breytingar hafa verið gerðar á lögum um húsnæðisbætur sem leiddu til þess að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækkuðu um fjórðung, auk þess sem bæturnar taka til fleiri heimilismanna og skerðingarmörk vegna eigna eru hærri. Breytingar á húsaleigulögum hafa einnig verið samþykktar þar sem markmiðið er að bæta réttarstöðu leigjenda og þannig auka húsnæðisöryggi. Í breytingunum felst skýrari rammi um ákvörðun leigufjárhæðar og aukinn fyrirsjáanleiki um breytingar á leigufjárhæð. Unnið er að endurskoðun á byggingareglugerð þar sem ábendingar úr könnuninni verða hafðar til hliðsjónar. Skipulagsgátt hefur verið tekin í notkun en hún er samráðsgátt um skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum og framkvæmdaleyfi. Með opnun gáttarinnar hefur verið unnið markvisst að styttingu afgreiðslutíma og skilvirkari stjórnsýslu.
-
Samgöngur. Alls bárust 28 ábendingar tengdar samgöngum sem sneru m.a. að ökunámi, skoðunarstöðvum og veghaldi héraðsvega. Breytingar hafa þegar verið gerðar á ökunámi sem nú er orðið stafrænt að stærstum hluta, nýjar skoðunarhandbækur skoðunarstöðva hefur verið gefnar út og unnið er að breytingu á reglugerð um skoðun ökutækja, m.a. til að einfalda kröfur um búnað á skoðunarstofum. Þá er vinna við endurskoðun á forsendum flokkunar vega í héraðsvegi og tengivegi, sem og reglum um uppbyggingu og viðhald langt komin. Sérstök áhersla hefur verið lögð á þróun stafrænnar þjónustu og sjálfsafgreiðslu til hagsbóta fyrir almenning og hagaðila.
-
Sveitarstjórnar- og byggðamál. Sjö ábendingar bárust á sviði sveitarstjórnar- og byggðamála. Þrjár ábendingar voru almenns eðlis og hefur verið unnið að þeim á grundvelli stjórnarsáttmála, byggðaáætlunar og áætlunar í málefnum sveitarfélaga. Ábendingarnar sneru m.a. að óstaðbundnum störfum en sérstök aðgerð er í byggðaáætlun 2022-2036 um að fjölga atvinnutækifærum og fjölbreytileika starfa úti á landi og er unnið því í samvinnu við ráðuneyti og stofnanir. Tvær ábendingar leiddu til breytinga á lögum en Alþingi samþykkti í árslok 2023 frumvarp innviðaráðherra um breytingu á fyrirkomulagi flutningsjöfnunarstyrkja til að gera úthlutun þeirra skilvirkari. Þá var gerð breyting á lögum um lögheimili og aðsetur, sem kveður á um að þinglýstur eigandi fasteignar ákveði hversu margir einstaklingar megi hafa lögheimili í fasteigninni og tilkynnir Þjóðskrá Íslands ákvörðun sína.
Margar af ábendingunum sem bárust vörðuðu stafræn verkefni, s.s. vegna skráninga, umsókna og vottorða. Innviðaráðuneytið og stofnanir þess hafa markvisst unnið að stafrænni framþróun í samræmi við stefnu stjórnvalda um stafræna þjónustu hins opinbera. Markmiðið er að almenningur og fyrirtæki hafi jafnt aðgengi að framúrskarandi opinberri þjónustu og geti nýtt möguleika stafrænnar þjónustu og innviði hins opinbera til aukinnar nýsköpunar, verðmætasköpunar og lýðræðislegrar þátttöku.