Government Offices of Iceland

08/30/2024 | Press release | Distributed by Public on 08/30/2024 10:25

Frumvarp um endurskoðun laga vegna gullhúðununar í samráðsgátt

Tilefni frumvarpsins er skýrsla um það hvort svokölluð gullhúðun hafi átt sér stað á málefnasviði ráðuneytisins á tímabilinu 2010-2022 en skýrslan var birt í janúar á þessu ári. Eins og fram kemur í skýrslunni "Skýrsla um innleiðingu EES-gerða í landsrétt" hefur "gullhúðun" átt sér stað á málefnasviði umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneytisins, þ.e. að gerðar séu ríkari kröfur í innleiðingarlöggjöf en nauðsynlegt er á grundvelli lágmarkskrafna þeirra EES-gerða sem verið er að innleiða.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra boðaði í umræðum á Alþingi þann 12. mars 2024 að brugðist yrði við niðurstöðu skýrslunnar og að sett yrði af stað vinna við að endurskoða innleiðingu á EES-gerðum í löggjöf um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana, með það að markmiði að færa löggjöfina að þeim lágmarkskröfum sem gerðar eru í EES-gerðum. Frumvarpið, sem er nú sett í samráðsgátt, er afrakstur þeirrar vinnu.

Frumvarpið felur í sér annars vegar breytingu á ákvæði 2. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana að því er varðar umhverfismat skipulagsáætlana og hins vegar ákvæðum í 1. viðauka laganna að því er varðar lengd og þvermál leiðslna til flutnings á nánar tilgreindum efnum/efnasamböndum.

Athygli er vakin á því að umsagnarfrestur vegna frumvarpsins í samráðsgátt stjórnvalda er til 16. september næstkomandi.

Samráðsgátt | Mál: S-169/2024