Government Offices of Iceland

11/19/2024 | Press release | Distributed by Public on 11/19/2024 07:45

Stækkun náttúruvættisins Hverfjalls staðfest af ráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, skrifaði í dag undir endurskoðaða friðlýsingu náttúruvættisins Hverfjalls í Mývatnssveit. Við endurskoðunina verða mörk svæðisins dregin lengra austan megin við Hverfjall, en dregin nær Hverfjalli vestan við það. Við þessa breytingu stækkar heildarflatarmál náttúruvættisins úr 3 km2í 3,78 km2.

Hverfjall er stór, hringlaga öskugígur sem myndaðist fyrir um 2500 árum í þeytigosi í grunnu stöðuvatni og er sérstakur að því leyti að gígskálin er álíka djúp og gígurinn er hár. Gígurinn er talinn ein fegursta öskugígamyndun á Íslandi og ein sú stærsta sinnar tegundar á jörðinni.

Endurskoðun friðlýsingarinnar er hluti af samvinnu landeigenda í Vogum í Mývatnssveit, Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins varðandi framtíðarfyrirkomulag náttúruvættisins.

Í maí 2024 undirrituð ráðherra og landeigendur samning um náttúruvættið og breytingar á friðlýsingu þess. Samningnum er ætlað að sjá til þess að öll innviðauppbygging og umsjón á svæðinu hafi markmið friðlýsingarinnar að leiðarljósi. Landeigendur hyggjast innheimta þjónustugjöld í formi bílastæðagjalda á bílastæði sem nú verður utan marka hins friðlýsta svæðis en var áður innan marka þess.

Í samningum kemur m.a. fram að landeigendur sjái til þess að á svæði, sem áður var innan marka náttúruvættisins en verður utan eftir breytingar á mörkum, verði aðgangur að salernum, sem landeigendur muni sjá um að þjónusta, viðhalda, byggja upp og fjármagna á grundvelli þeirra þjónustutekna sem svæðið skapar. Sama gildir um bílastæði fyrir gesti hins friðlýsta svæðis. Samningsaðilar voru sammála um að tryggja almannarétt um náttúruvættið og mun því för gangandi vegfarenda um svæðið ekki verða hindruð óháð því hvernig þeir hafa komið sér á staðinn.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra: "Ég vil þakka landeigendum Voga í Mývatnssveit fyrir samstarfið í þessu verkefni. Þetta verkefni er hluti af þeirri nýju nálgun sem ég hef talað fyrir í náttúruvernd, sem snýr að aukinni aðkomu heimafólks að náttúruperlum í þeirra nærumhverfi. Mín sýn og landeigenda var sú sama, þ.e. að tryggja að náttúrperlunni Hverfjalli væri sýndur sá sómi sem hún á skilið. Samningurinn og endurskoðun friðlýsingarinnar sem við unnum að með landeigendum tryggir þeirra aðkomu að vernd og stjórn svæðisins og byggir á því að landeigendur hafi umsjón með hinu friðlýsta svæði, innviðum þess og þjónustu þannig að Hverfjall verði til framtíðar fjárhagslega sjálfbær ferðamannastaður í hæsta gæðaflokki samhliða því að verndargildi svæðisins verði viðhaldið til framtíðar."