Ministry of Finance and Economic Affairs of Iceland

07/04/2024 | Press release | Distributed by Public on 07/04/2024 04:22

Hvatt til enn frekari notkunar rafmagns , vetnis og metanbíla með breyttum reglum um bifreiðahlunnindi

4. júlí 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hvatt til enn frekari notkunar rafmagns-, vetnis- og metanbíla með breyttum reglum um bifreiðahlunnindi

Í júlí taka gildi breytingar á reglum um bifreiðahlunnindi sem hafa það að markmiði að hvetja enn frekar til notkunar rafmagns-, vetnis- og metanbíla umfram bensín- og díselbíla. Reglurnar eru hluti af aðgerðum í nýrri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem hefur verið kynnt og birt í samráðsgátt. Þar er að finna um 150 aðgerðir og ber fjármála- og efnahagsráðuneytið ábyrgð á 20 þeirra.

Samkvæmt lögum um tekjuskatt teljast hvers konar hlunnindi og gæði sem skattaðila hlotnast til skattskyldra tekna og falla umráð bifreiðar, sem launagreiðendur láta starfsfólki í té, undir slík hlunnindi og teljast starfsmanni til tekna. Við útreikninga er m.a. miðað við hlutfall af kaupverði bíls.

Ríkisskattstjóri gefur út reglur um mat á hlunnindum og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Við gerð matsreglna fyrir tekjuárið 2024 vegna bifreiðahlunninda var gerður skýr greinarmunur á því hvort um er að ræða bifreið sem knúin er með jarðefnaeldsneyti eða bifreið sem knúin er með rafmagni, vetni eða metan. Í fyrra tilvikinu eru bifreiðahlunnindi miðuð við 28% af verði bíls og 6% lækkun ef starfsmaður greiðir sjálfur rekstrarkostnað en í seinna tilvikinu við 25% og 3% lækkun af upphaflegu kaupverði með nánari reglum þar um. Breytingin sem gerð verður felst í að gera skýrari greinarmun í skattmatsreglum þessa tekjuárs, frá og með 1. júlí og lækka hlutfall vegna raf-, vetnis- og metanbíla í 20% frá og með þeim tíma.


Efnisorð

Til baka