Government Offices of Iceland

10/18/2024 | Press release | Distributed by Public on 10/18/2024 10:49

Til umsagnar: Þingsályktunartillaga um aðgerðir gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis

Birt hafa verið til umsagnar í samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis fyrir árin 2025-2029. Tillagan byggist á skýrslu starfshóps sem heilbrigðisráðherra skipaði um gerð slíkar aðgerðaáætlunar og var staðfest sem áætlun stjórnvalda með undirritun heilbrigðisráðherra, matvælaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrr í sumar.

Barátta gegn sýklalyfjaónæmi krefst alþjóðlegrar samvinnu

Sýklalyfjaónæmi er vaxandi alþjóðlegt vandamál og ein stærsta heilbrigðisógn sem heimurinn stendur frammi fyrir. Sú hætta er raunveruleg að í náinni framtíð verði ekki hægt að meðhöndla einfaldar og alvarlegar sýkingar með sýklalyfjum. Slík staða myndi hafa gríðarlega alvarlegar heilsufars- og efnahagslegar afleiðingar fyrir þjóðir heims.

Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi krefst alþjóðlegrar samvinnu, því ónæmar bakteríur dreifast milli landa og virða engin landamæri. Alþjóðlegar stofnanir hafa undanfarið bent á hættuna af völdum sýklalyfjaónæmra baktería og hvatt til aðgerða til að sporna gegn útbreiðslu þeirra áður en það verður of seint. Sýklalyfjaónæmi var eitt af helstu umfjöllunarefnunum á 77. þingi Alþjóðaheilbrigðis­mála­stofnunarinnar (WHO) í Genf í maí sl. Þar var m.a. rætt um mikilvægi þess að auka rannsóknar- og þróunarstarf, bæta aðgengi að sýklalyfjum og nauðsyn þess að hver þjóð eigi sér öfluga og fjármagnaða innlenda aðgerðaáætlun.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fjallaði um sýklalyfjaónæmi á þingi sínu í haust. Í yfirlýsingu allsherjarþingsins, 9. september sl., er kallað eftir pólitískri forystu og bent á ábyrgð stjórnvalda í hverju landi, til að takast á við þessa vá með markvissum aðgerðum og að nálgun verkefnisins taki mið af samfélaginu með áherslu á heilsu í allri stefnumótun (e. Health in all policies).

Umsagnarfrestur til 1. nóvember næstkomandi

Drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt fjalla um sex aðgerðir sem fela í sér 24 markmið og 75 verkefni sem nauðsynlegt er að hrinda í framkvæmd. Verkefnunum er forgangsraðað og kostnaður af framkvæmd þeirra metinn. Aðgerðunum sem um ræðir er ætlað að stuðla að markvissri og skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum. Þungamiðja áætlunarinnar felur í sér verkefni sem miða að því að minnka og bæta notkun sýklalyfja, auka hreinlæti og koma í veg fyrir sýkingar með öðrum ráðum eins og bólusetningum. Nauðsynlegur þáttur í því er að upplýsa og um mikilvægi skynsamlegrar sýklalyfjanotkunar og mikilvægi sóttvarna.