The President of Iceland

10/08/2024 | Press release | Distributed by Public on 10/09/2024 01:31

Konunglegar móttökur

Fréttir|08. okt. 2024

Konunglegar móttökur

Forsetahjón hefja ríkisheimsókn til Danmerkur í boði Friðriks X. Danakonungs og Mary drottningar. Forseti og Björn Skúlason, eiginmaður hennar, komu með báti að gömlu tollbryggjunni Toldboden í Kaupmannahöfn, þar sem konungshjónin tóku á móti þeim ásamt opinberum sendinefndum. Þaðan héldu hjónin saman með hestvagni til borgarvirkisins, kastellet, þar sem forseti lagði blómkrans á minnisvarða um danska hermenn.

Áfram var haldið í hestvagni með heiðursverði til Amalíuborgarhallar, þar sem forsetahjón gista meðan á heimsókninni stendur. Forsetahjón færðu konungshjónunum að gjöf handprjónaðar lopapeysur frá Íslandi. Að því loknu drukku þau morgunkaffi með Margréti Þórhildi Danadrottningu áður en dagskráin hófst með heimsókn á ýmsa staði í Kaupmannahöfn.

Fyrst var farið í Jónshús og var þetta í fyrsta sinn sem þjóðhöfðingi Danmerkur heimsótti húsið. Þá var haldið í Kristjánsborgarhöll, aðsetur danska þjóðþingsins, þar sem forsetahjón ræddu við þingmenn. Forseti ávarpaði samkomuna og það gerði einnig Søren Gade, forseti þingsins.

Á fyrsta degi ríkisheimsóknarinnar var einnig farð á Árnasafn í Kaupmannahafnarháskóla, endurvinnslustöðin Amagerbakke var heimsótt og loks áttu forseti og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, fund með Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur sem einnig gegnir hlutverki varaforsætisráðherra.

Um kvöldið buðu konungur og drottning til hátíðarkvöldverðar í Kristjánsborgarhöll til heiðurs forseta Íslands. Í borðræðu sinni þakkaði forseti konungshjónunum fyrir höfðinglegar móttöku, einstaka hlýju þeirra og gestrisni.

Þá ræddi forseti um hve samofin Íslandssagan er sögu Danmerkur og sameiginlegir hagsmunir þjóðanna einnig. "Á margan hátt hefur íslensk sjálfsmynd því verið mótuð af því sem við eigum sameiginlegt með Danmörku en einnig af hinu sem skilur okkur að. Í ár fagnar Ísland 80 ára lýðveldisafmæli. Við erum stolt, sjálfstæð þjóð en við erum líka stolt af sögunni og af norræna menningararfinum sem við eigum hlutdeild í með ykkur. Við vitum fyrir víst að staða Íslands er sterkari þökk sé nánu samstarfi við frændur okkar á Norðurlöndum."

Forseti gerði vináttu Vigdísar Finnbogadóttur og Margrétar Þórhildar drottningar einnig að umtalsefni í borðræðunni. "Það gleður mig einlæglega að geta heiðrað þessa tvo kvenleiðtoga með örfáum orðum því ég trúi því staðfastlega að jafnri stöðu kynjanna fylgi mikilvæg og þörf breyting á því gildismati sem er grunnur samfélagsins. Í jöfnu samfélagi, þar sem öll fá að njóta sín og eru metin að verðleikum óháð kyni, erum við líklegri til að láta okkur varða um hag hvers annars og jarðarinnar sem við byggjum. Og við erum mun líklegri til að búa til betri heim ef við virkjum sköpunargáfu listamanna, hönnuða, arkitekta - og okkar allra. Jafnrétti er lykill að friðsamara, réttlátara og sjálfbærara samfélagi."

Forseti ræddi einnig vaxandi kvíða og einmanaleika meðal ungs fólks. "Ég býð ekki fram neina töfralausn en ég hef trú á því að við verðum að mæta þessum áskorunum með kærleika. Því staðreyndin er sú að kærleikurinn er óþrjótandi auðlind og öll höfum við þörf fyrir meiri mennsku og vináttu. Látum kærleika og gæsku vera okkur leiðarljós.

Ávarp forseta við hátíðarkvöldverðinn í Kristjánsborgarhöll má lesa í heilu lagi hér.

Deila