Government Offices of Iceland

10/08/2024 | Press release | Distributed by Public on 10/08/2024 08:46

Tímamótasamningur Íslands og Danmerkur vegna íslensku handritanna

Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, er þátttakandi í opinberri sendinefnd forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, og Björns Skúlasonar eiginmanns hennar, í tengslum við ríkisheimsókn til Danmerkur. Hefð er fyrir því að fyrsta ríkisheimsókn nýs forseta í embætti sé til Danmerkur. Þetta er jafnframt fyrsta ríkisheimsóknin sem Danir bjóða til eftir að Friðrik X. varð konungur. Markmið heimsóknarinnar er að styrkja söguleg tengsl Íslands og Danmerkur og efla enn frekar hið nána samband þjóðanna.

Íslenskum handritum gert hátt undir höfði

Íslenska handritaarfinum verður gert mun hærra undir höfði á næstu árum. Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Christina Egelund, mennta- og vísindamálaráðherra Danmerkur, undirrituðu í dag sameiginlega yfirlýsingu um gildi handritasafns Árna Magnússonar og leiðir til að auka þekkingu á því og efla áframhaldandi samstarf og samvinnu landanna á þessu sviði.

Handritasafn Árna Magnússonar er einstakt á heimsvísu og hefur að geyma heimildir sem eru að miklu leyti undirstaða að sögu Íslands og Norðurlandanna. Handritasafnið er varðveitt í tveimur söfnum í tveimur löndum, í Árnasafni í Kaupmannahöfn og á Árnastofnun í Reykjavík. Handritasafnið var í heild sinni sett á sérstakan varðveislulista UNESCO árið 2009 sem kallast Minni heimsins sem undirstrikar mikilvægi þess fyrir heimsbyggðina.

Til Íslands aftur eftir 300 ár

Á undanförnum árum hafa Ísland og Danmörk unnið að leiðum til þess að gera handritaarfinum hærra undir höfði. Yfirlýsingin er niðurstaðan af þeirri vinnu og fjallar um eftirfarandi atriði:


1. Samkomulag Árnastofnunar í Reykjavík og Árnasafns í Kaupmannahöfn um að liðka fyrir lánum á handritum milli landanna. Þetta þýðir að fleiri íslensk handrit munu koma til Íslands á komandi árum til rannsókna og sýninga, þar á meðal handrit sem hafa ekki komið til Íslands í rúm 300 ár.

2. Rannsóknir á handritum úr handritasafni Árna Magnússonar verða styrktar með það að markmiði að auka skilning á mikilvægi þessa sameiginlega menningararfs og þýðingu hans fyrir Norðurlöndin.

3. Stóraukna kynningu á handritunum úr handritasafni Árna Magnússonar, þar sem megináherslan verður á börn og ungmenni og læsi þeirra á menningararfinum. Ævintýraheimur handritanna er endalaus uppspretta skapandi hugsunar á öllum sviðum menningarlífsins.

4. Haldnar verða tvær alþjóðlegar ráðstefnur um menningararfinn sem handritin eru grundvöllur að, önnur í Reykjavík en hin í Kaupmannahöfn.

5. Heildarstafvæðingu á handritum úr handritasafni Árna Magnússonar. Þetta er afar mikilvægt skref í langtímavarðveislu á menningararfinum og tryggir tilvist handritanna á tíma gervigreindar og annarra hátækniþróunar.


Úrlausn handritamálsins á sínum tíma var til eftirbreytni og margar þjóðir líta til samkomulagsins sem þá var gert sem fyrirmynd að því að menningarminjum verði skilað til upprunalandanna í sátt beggja aðila.

,,Handritasafn Árna Magnússonar er ein af birtingarmyndum framlags Íslands til heimsbókmenntanna. Á undanförnum árum höfum við lagt ríka áherslu á að gera þessum menningararfi hærra undir höfði og gera hann aðgengilegri almenningi. Til að mynda verður bylting í aðgengi fyrir almenning með tilkomu handritasýningarinnar sem mun opna í Eddu á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember næstkomandi, þar sem gersemar eins og Snorra-Edda, Eddukvæði og handrit Íslendingasagna munu loksins koma fyrir augu almennings. Þessi yfirlýsing milli Íslands og Danmerkur er liður í því að varðveita, rannsaka og kynna þennan menningararf okkar eins og hann á sannarlega skilið,'' sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.