12/12/2024 | Press release | Distributed by Public on 12/12/2024 03:21
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann nýverið rannsókn á ofbeldi í nánum samböndum og fjölskyldum hinsegin fólks á Íslandi. Rannsóknin er hluti aðgerðaáætlunar í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022-2025 en hún er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og eru niðurstöður hennar til þess fallnar að gefa innsýn í stöðu málaflokksins og hvaða aðgerða er þörf.
Rannsóknin fólst í því að kortleggja tíðni og birtingarmyndir ofbeldis í nánum samböndum og á heimilum hinsegin fólks. Aflað var gagna með spurningakönnun sem send var til félagsfólks í Samtökunum ´78, spurningakönnun sem lögð var fyrir umræðuhóp á Hinsegin spjallinu, og unnið var upp úr einstaklingsviðtölum við hinsegin fólk. Þá voru greind svör framhaldsskólanema í Íslensku æskulýðsrannsókninni.
Greining gagna úr Íslensku æskulýðsrannsókninni sýndu að ungmenni sem skilgreina kyn sitt sem kynsegin eða "annað kyn" eru líklegri en drengir og stúlkur til að hafa orðið vitni að líkamlegu ofbeldi á heimili sínu, að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi á heimilinu og að hafa verið beitt líkamlegu ofbeldi í nánu sambandi. Þá voru svarendur sem eru pankynhneigðir og tvíkynhneigðir að sama skapi líklegri en ungmenni með aðrar kynhneigðir til að hafa orðið vitni að ofbeldi á heimilinu, hafa verið beitt ofbeldi á heimili sínu og að hafa orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi. Ungmenni sem voru gagnkynhneigð, eikynhneigð eða óviss um kynhneigð sína höfðu síður upplifað líkamlegt ofbeldi á heimili eða í nánu sambandi.
Í könnun fyrir félaga í Samtökunum ´78 kom m.a. fram að meirihluti þátttakenda hafði upplifað eitthvert form af andlegu ofbeldi í fyrrverandi sambandi. Nokkuð hátt hlutfall hafði einnig upplifað slíka hegðun af hendi foreldra en lægra hlutfall upplifði andlega ofbeldishegðun af hendi núverandi maka eða annars fjölskyldumeðlims.
Rannsóknin var unnin á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins í samvinnu við Samtökin ´78 og Ríkislögreglustjóra.
Fyrir nánari upplýsingar um niðurstöður rannsóknarinnar má hafa samband við Guðnýju Gústafsdóttur, verkefnisstjóra hjá Félagsvísindastofnun, í gegnum netfangið [email protected].