11/13/2024 | Press release | Distributed by Public on 11/13/2024 06:45
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Stígamót hafa gert með sér samstarfssamning um áframhaldandi stuðning við verkefnið Sjúktspjall. Bjarni Benediktsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Drífa Snædal, talskona Stígamóta, undirrituðu samninginn í dag. Samningurinn felur í sér að ráðuneytið styrki verkefnið um 12 milljónir króna. Stutt hefur verið við verkefnið síðastliðin þrjú ár.
Sjúktspjall er netspjall þar sem ungmenni á aldrinum 13-19 ára geta í trúnaði leitað fræðslu og fengið stuðning um ýmislegt sem tengist samböndum, samskiptum og ofbeldi. Markmiðið er bæði að styðja þolendur við að losna úr ofbeldissamböndum og aðstoða gerendur við að láta af ofbeldi.
Netspjallinu sem er hluti af forvarnarátakinu SJÚKÁST var hleypt af stokkunum í mars 2022 og hafa hundruð ungmenna sótt sér ráðgjöf og stuðning í gegnum spjallið.
Verkefnið styður við forvarnaráætlun meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni ásamt aðgerðaáætlun fyrir árin 2021-2025.