11/11/2024 | Press release | Distributed by Public on 11/11/2024 08:22
Drög að frumvarpi sem veitir opinberum háskólum lagaheimild til að innheimta skólagjöld af nemendum utan EES-svæðisins hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti áformin í ágúst sl. en Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem innheimtir ekki slík skólagjöld í dag.
Breytingin heimilar opinberum háskólum gjaldtöku skólagjalda af nemendum með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), Færeyja og Grænlands. Miðað skal við að gjaldtakan standi undir kennslu, rannsóknum og öðrum verkefnum skv. 1. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Í frumvarpsdrögunum eru skilgreindar undanþágur frá gjaldtökuheimildinni.
Tilefni og markmið breytinganna er að nýta opinber fjárframlög til háskóla betur og efla háskólastigið á Íslandi. Fjöldi erlendra umsókna í háskóla á Íslandi hefur stóraukist undanfarin ár en í Háskóla Íslands fjölgaði erlendum umsóknum úr 1472 fyrir síðasta skólaár, í 2285 fyrir núverandi skólaár. Þar af voru tæplega 2000 umsóknir frá nemendum utan EES-svæðisins. Sambærileg þróun hefur átt sér stað hjá hinum háskólunum hérlendis.
Ísland er í dag eina Norðurlandaþjóðin sem ekki innheimtir skólagjöld af nemendum utan EES-svæðisins. Mikilvægt er að opinberir háskólar hér á landi gangi í takt við hin Norðurlöndin og alþjóðaþróun á sviði háskólamála. Með tilkomu skólagjalda skv. frumvarpinu er fundin ný leið til þess að standa undir kostnaði við menntun nemenda utan EES-svæðisins og getur innleiðing skólagjalda leitt til þess að íslenskir háskólar verði eftirsóknarverðari kostur fyrir efnilega nemendur þar sem aukin samkeppnishæfni háskólanna í alþjóðlegum samanburði sem og bætt fjármögnun gerir þeim kleift að auka gæði og umfang námsins.
Samhliða breytingunum verða gerðar breytingar á gildissviði reglna, nr. 755/2024, um fjárframlög til háskóla, á þann veg að reglurnar taki almennt ekki til nemenda utan EES-svæðisins. Í því felst að loknar einingar og brautskráningar nemenda utan EES-svæðisins verða ekki taldar með í útreikningum á fjárframlögum hins opinbera til háskóla samkvæmt reglum nr. 755/2024. Þessu fylgir ekki niðurskurður heldur verður sama fjármagni dreift á færri nemendur skólanna, þ.e. einungis nemendur innan EES-svæðisins.
Nánari upplýsingar um frumvarpsdrögin má nálgast í samráðsgátt. Umsagnarfrestur er til 6. desember.