The President of Iceland

11/10/2024 | Press release | Distributed by Public on 11/10/2024 16:15

Samverustund í Grindavík

Fréttir|10. nóv. 2024

Samverustund í Grindavík

Forseti flytur ávarp og sækir samverustund í Grindavíkurkirkju í tilefni af því að eitt ár er liði síðan rýma þurfti bæinn vegna eldsumbrota.

Í ávarpi sínu sagði forseti að engin sem ekki hefði gengið gegnum slíkar hamfarir geti sett sig í spor Grindvíkinga. Þakkarvert væri að Íslendingar stæðu saman og réttu hver öðrum hjálparhönd þegar slíkar hamfarir ættu sér stað.

Forseti sagði Grindvíkinga hafa sýnt mikið úthald og seiglu. Þá vék hún að því hve aðdáunarvert sé að Grindvíkingum hafi tekist að halda í samfélagsandann, þrátt fyrir að hafa misst heimili sín.

"Ég hef ekki, frekar en þið, svör við því hversu lengi móðir náttúra ætlar að herja hér á okkur, né svör við því hvernig skal bregðast við þeim fjölda áskorana sem fylgja hennar háttalagi. En ég hef trú, bæði á ykkur og á okkar öfluga samfélagi, og vil að lokum hvetja ykkur og öll sem að málum koma til að setja á oddinn að vinna saman að framtíðarsýn fyrir ykkar samfélag. Ekkert vekur meiri von og kraft í brjósti en að fá sæti við borðið þegar erfiðleikar steðja að - móta þannig skref fyrir skref þá framtíð og það samfélag sem þið viljið," sagði í ávarpi forseta, sem lesa má í fullri lengd hér.

Auk forseta fluttu ávörp þau Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Sr. Elínborg Gísladóttir sóknarprestur og Ólafur Ólafsson, fyrirliði meistaraflokks karla í körfuknattleik. Kirkjukór Grindavíkurkirkju ásamt Kristjáni Hrannari Pálssyni organista fluttu tónlist. Athöfnin var sýnd í beinu streymi sem sjá má hér.

Deila