Government Offices of Iceland

07/31/2024 | Press release | Distributed by Public on 07/31/2024 10:55

Dómsmálaráðuneytið veitti engar leiðbeiningar vegna nafnbreytingar ​

Í umfjöllun í fjölmiðlum um nafnbreytingu erlends ríkisborgara var haft eftir Þjóðskrá Íslands að stuðst hafi verið við leiðbeiningar dómsmálaráðuneytisins. Af því mátti ætla að ráðuneytið hefði gefið út leiðbeiningar um afgreiðslu slíkra mála. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki gefið út leiðbeiningar, hvorki almennar né sérstakar, varðandi túlkun á 16. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og gaf heldur ekki sérstakar leiðbeiningar í þessu tiltekna máli.

Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands á grundvelli laga um mannanöfn eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins. Af framkvæmd úrskurða í kærumálum þar sem synjanir Þjóðskrár Íslands eru kærðar til ráðuneytisins mótast óhjákvæmilega viðmið sem kunna að hafa fordæmisgildi í sambærilegum málum. Svo háttaði þó ekki til í því máli sem hefur verið fjallað um í fjölmiðlum.

Skírskotun Þjóðskrár Íslands til leiðbeininga frá dómsmálaráðuneyti var því ekki rétt og til þess fallin að valda misskilningi, sem rétt þykir að sé leiðréttur. Ráðuneytið hefur komið þessum sjónarmiðum á framfæri við Þjóðskrá Íslands.