The President of Iceland

07/14/2024 | Press release | Distributed by Public on 07/15/2024 09:11

Árneshreppur á Ströndum

Fréttir|14. júlí 2024

Árneshreppur á Ströndum

Forseti fer í opinbera heimsókn í Árneshrepp á Ströndum og kynnir sér þar lífshætti íbúa og sögu. Ferðin stóð í þrjá daga og var þetta síðasta opinbera heimsókn forseta innanlands áður en hann lætur af embætti í lok júlí. Í embættistíð sinni hafa forsetahjónin farið að jafnaði í þrjár opinberar heimsóknir innanlands á ári og þannig heimsótt 22 sveitarfélög, auk tíðra ferða um landið allt af ýmsum öðrum tilefnum.

Árneshreppur er víðfeðmur en um leið eitt fámennasta sveitarfélag Íslands. Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti og hreppstjórnin buðu forseta velkominn á hreppamörkunum við fjallið Spena. Þaðan var ekið á sauðfjárbúið Mela í Trékyllisvík þar sem sauðfjárbændurnir Bjarnheiður Júlía Fossdal og Björn Guðmundur Torfason tóku á móti forseta. Sauðfjárrækt hefur löngum verið helsti atvinnuvegur í Árneshreppi en á Melum er fjárhúsið einnig nýtt sem tónleikastaður á sumrin þegar tónlistarhátíðin Nábrókin er haldin þar. Loks var haldið á Norðurfjörð. Þar var næturstaður í gamla kjötfrystihúsinu á Bergistanga en þar er nú starfrækt gistiheimili.

Á föstudagskvöld bauð hreppstjórn til kvöldverðar til heiðurs forseta í félagsheimilinu í Trékyllisvík fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Í ávarpi til Árneshreppsbúa vakti forseti meðal annars máls á því að Árneshreppur hafi undanfarin ár talist til brothættra byggðarlaga, þar hafi yfir 500 manns búið um miðja síðustu öld en við síðustu áramót hafi skráðir íbúar verið 53 talsins. Sagði forseti ljóst að mikill missir yrði af því ef byggð legðist af á þessum stórbrotna stað: "Öld fram af öld hafa Strandamenn eflt með sér dugnað og dirfsku, enda ekkert annað í boði á þessum slóðum, undir reginfjöllum fyrir opnu hafi. Fái fólk tækifæri til að sýna hér hvað í því býr mun sú sambúð halda áfram, okkur öllum til heilla." Ávarp forseta má lesa hér.

Á laugardeginum slóst forseti í för með gönguhópi á vegum Ferðafélags Íslands. Haldið var á fjallið Glissu á mörkum Reykjarfjarðar og Ingólfsfjarðar. Á tindi fjallsins sæmdi Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ, forseta gullmerki félagsins fyrir atbeina hans við að auka áhuga þjóðarinnar á heilbrigðum lífsháttum og útivist. Af Glissu lá leiðin niður í Ingólfsfjörð. Þar fræddi Guðjón Egill Ingólfsson verkfræðingur forseta og fylgdarlið um síldarverksmiðjuna sem þar var reist á fimmta áratug síðustu aldar. Allri vinnslu í verksmiðjunni lauk endanlega árið 1971 en Guðjón hefur haldið verksmiðjuhúsunum við á síðustu árum.

Að lokinni göngu var farið í sjósund fyrir botni Norðurfjarðar og loks í sund í Krossneslaug, en 70 ára afmæli laugarinnar var fagnað nú í sumar. Að loknum kvöldverði á Kaffi Norðurfirði efndi Ferðafélag Íslands svo til tónleika í fjárhúsinu í Norðurfirði þar sem Helgi Björns kom fram.

Á sunnudag lág leið forseta um söguslóðir á Ströndum. Hann heimsótti minja- og handverkshúsið Kört og kirkjur Árneshrepps í Trékyllisvík, þá gömlu og þá nýju. Í Trékyllisvík var einnig gengið um svonefndan Galdrastíg sem liggur frá þjóðveginum að Kistuvogi en sá staður er helst þekktur fyrir sagnir af aftökum á fólki vegna galdra á 17. öld. Guðjón Kristinsson, skrúðgarðyrkjumeistari í Stóru-Ávík, annaðist gerð stígsins sem lauk í fyrra.

Opinberri heimsókn forseta í Árneshrepp lauk í Djúpavík. Þar snæddi forseti hádegisverð í boði hreppstjórnar á Hótel Djúpavík og fékk leiðsögn um sögusýninguna í gömlu síldarverksmiðjunni þar. Hún var reist árin 1934‒35 og var gerð hennar verkfræðilegt afrek á marga lund. Fyrstu árin gekk reksturinn vel og borgaði verksmiðjan sig upp eftir tvær vertíðir en síðan hallaði undan fæti. Árið 1985 festu Ásbjörn Þorgilsson og Eva Sigurbjörnsdóttir, núverandi oddviti, kaup á verksmiðjuhúsunum, opnuðu Hótel Djúpavík og hafa unnið að endurbótum á síldarverksmiðjunni ásamt Héðni Ásbjörnssyni. Forseti fór einnig í Baskasetrið sem er komið haganlega fyrir í gömlum lýsistanki verksmiðjunnar. Sú framkvæmd var styrkt af verkefninu Áfram Árnes­­­hreppur sem var hluti af byggðaþróunarverkefninu Brot­hættar byggðir á vegum Byggða­stofnunar.

Myndasafn frá opinberri heimsókn forseta í Árneshrepp á Ströndum má sjá hér.

Deila