The President of Iceland

10/01/2024 | Press release | Archived content

Ræðismenn Íslands erlendis

Fréttir|01. okt. 2024

Ræðismenn Íslands erlendis

Forsetahjón taka á móti um 140 kjörræðismönnum Íslands frá 71 landi, sem staddir eru á Íslandi í boði utanríkisráðuneytisins í tilefni af Ræðismannaráðstefnu Íslands. Ráðstefnan fer fram í Reyjavík á fimm ára fresti og er nú haldin í níunda skiptið. Blásið var til fyrstu ráðstefnunnar árið 1971. Forseti þakkaði ræðismönnunum fyrir þjónustu þeirra við hagsmuni Íslendinga, en starf ræðismanna er alfarið unnið í sjálfboðavinnu.

Ræðismenn Íslands eru burðarás borgaraþjónustu utanríkisþjónustunnar. Þeir eru nú 213 talsins í 102 löndum og gera stjórnvöldum kleift að veita Íslendingum erlendis sambærilega borgaraþjónustu og stærri ríki, líkt og fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins. Auk þess að gæta hagsmuna íslenskra stjórnvalda, íslenskra fyrirtækja og Íslendinga í umdæmum sínum, gefa þeir út neyðarvegabréf og annast utankjörfundaratkvæðagreiðslur, en eitt helsta hlutverk þeirra er að vera til staðar fyrir Íslendinga erlendis þegar á bjátar, svo sem við slys, veikindi, andlát eða fangelsanir.

Á ráðstefnunni fá kjörræðismennirnir fræðslu um helstu áherslur utanríkisstefnu Íslands og viðskiptatengd málefni, með gestafyrirlesurum úr atvinnulífinu auk kynninga frá Íslandsstofu. Þá heimsækir hópurinn forsera Íslands á Bessastöðum, Hellisheiðarvirkjun og Vinaskóg Skógræktar Íslands við Þingvelli.

Deila